Jeppaferð með Suðurlandsdeild f4x4

Suðurlandsdeild ferðaklúbbsins 4×4 er þessa dagana að hefja vetrarstarf sitt. Haldnir eru fundir fyrsta þriðjudagskvöld hvers mánaðar.

Á fundina eru fengnir fyrirlesarar sem tengjast jeppamennsku, jeppabreytingum og ferðalögum. T.d. veðurfræðingar, jöklafræðingar og ýmsir aðrir sem hafa eitthvað fróðlegt í sarpinum.

Laugardaginn 27. september nk. ætlar Suðurlandsdeildin að standa fyrir jeppaferð fyrir jeppaeigendur. Allir eru velkomnir með á sínum jeppa, hvort sem hann er óbreyttur eða breyttur. Lagt verður af stað kl. 9:00 frá Olís Arnbergi á Selfossi og komið til baka síðdegis sama dag. Keyrt verður til fjalla, líklega farin skemmtileg hringleið um fjallabakssvæðið. Þessi ferð er án endurgjalds og allir ferðast á eigin ábyrgð. Fararstjórar verða reyndir jeppamenn á öflugum bílum og geta vonandi kennt óreyndum eitt og annað um jeppamennsku og ferðalög.

Þetta er upplagt tækifæri fyrir jeppaeigendur til að bjóða fjölskyldunni í skemmtilega jeppaferð. Allir hafi með sér nesti og hlýjan útivistarfatnað.

Brýnt er fyrir þátttakendum að akstur utan vega er ólöglegur og ferðast skal í sátt við náttúruna.

Vonast er til að þetta veki áhuga jeppaeigenda og að sem flestir komi með í ferðina. Þeir sem ætla að koma með eru beðnir að senda tölvupóst fyrir 26. september á f4x4sudur@gmail.com og gefa upp nafn og bílategund og fjölda þátttakenda eða finna f4x4 Suðurlandsdeild á Facebook og skrá sig þar.

Fyrri greinTvennir tímar hefja vetrarstarfið
Næsta greinGefa fólki kost á að kynnast starfseminni í húsinu