Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu í Þorlákshöfn voru kallaðir út laust fyrir klukkan 13 í dag eftir að eldur kom upp í jeppabifreið á Þorlákshafnarvegi, skammt sunnan við Hjalla í Ölfusi.
„Hann var á akstri þegar bílstjórinn varð var við reyk. Það varð engum meint af og enginn í hættu en bíllinn er algjörlega ónýtur. Þetta var dieselbíll sem var alelda þegar við komum á vettvang og brann til grunna, en slökkvistarf gekk vel fyrir sig,“ sagði Halldór Ásgeirsson, aðalvarðstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu í samtali við sunnlenska.is.
Að sögn Halldórs hefur helgin gengið vel og stóráfallalaust hjá Brunavörnum Árnessýslu og vonast hann til að framhald verði á því í kvöld.
„Veðrið er að hjálpa okkur, það eru brennur og varðeldar víða í kvöld, við erum með lista yfir einhverja tugi af brennum um helgina, sem flestar verða í kvöld enda veðrið orðið ágætt. En það hjálpar vissulega til fyrir okkur að það er blautt í öllum gróðri,“ sagði Halldór að lokum.

