Jáverk bauð lægst

Jáverk á Selfossi bauð lægst í smíði aðveitustöðvar fyrir Rarik undir Eyjafjöllum. Sex verktakar buðu í verkið og hljóðaði tilboð Jáverk upp á 49,5 milljónir króna.

Kostnaðaráætlun Rarik hljóðaði upp á 49,8 milljónir króna.

Að sögn Gylfa Gíslasonar, framkvæmdastjóra Jáverk, er verkefnastaða fyrirtækisins ágæt um þessar mundir. Jáverk er m.a. að reisa fiskeldisstöð á Reykjanesi og byggja við Loftleiðahótelið í Reykjavík.