Jarðhitasýningunni í Hellisheiðarvirkjun lokað tímabundið

Upptök skjálftans voru skammt norðan við Hellisheiðarvirkjun. Ljósmynd/ON

Í ljósi þeirrar óvissu sem uppi er vegna kórónaveirunnar á Íslandi hefur Orka náttúrunnar ákveðið að loka tímabundið Jarðhitasýningunni í Hellisheiðarvirkjun.

„Starfsemi Jarðhitasýningarinnar er ólík annarri ferðaþjónustu að því leyti að hún er í sama húsi og virkjunarrekstur. Starfsfólk Hellisheiðarvirkjunar sinnir mikilvægri grunnþjónustu með því að halda starfsemi virkjunarinnar gangandi og er gripið til lokunarinnar til að draga úr líkum á að lykilstarfsfólk veikist,“ segir í tilkynningu frá ON.

Ekki er grunur um smit og er því eingöngu um varúðarráðstöfun að ræða. Lokunin er ein af aðgerðum OR og dótturfyrirtækja til að fyrirbyggja að grunnþjónusta fyrirtækjanna raskist.

„Yfir vetrartímann koma hátt í 200 gestir á sýninguna á degi hverjum. Lokunin tekur gildi frá og með fimmtudeginum 5. mars. Starfsfólk Jarðhitasýningarinnar vinnur að því að leita lausna fyrir þá hópa sem þegar hafa bókað heimsóknir. ON er að upplýsa hagsmunaðila um þessa ákvörðun, sem verður endurskoðuð reglulega,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Fyrri greinBein sem kom í veiðarfæri greint með DNA
Næsta greinKlippt af bíl á slitnum sumardekkjum