Jarðskjálftar í brennidepli

Umfangsmiklar breytingar verða gerðar á verslunar- og þjónustumiðstöðinni Sunnumörk í Hveragerði en eigandinn, fasteignafélagið Reitir stendur að breytingunum.

Fyrirtækjum í húsnæðinu hefur fækkað verulega og er breytingunum meðal annars ætlað að fríska upp á húsnæðið og draga fleira fólk að.

Meðal þess sem áhersla verður lögð á er að almenningur fái betri aðgang að sprungu sem liggur undir húsinu og er sýnileg í gegnum gler á gólfinu á bókasafninu. Þá verður jarðskjálftahermir færður og gerður aðgengilegri og sett upp sýning um jarðskjálftann 2008.

Mun fasteignafélagið hafa ákveðið að setja allt að tvær milljónir króna í uppsetningu sýningarinnar og breytingarnar á húsnæðinu.

Breytingarnar hafa einnig í för með sér að póstafgreiðsla, bókasafn og upplýsingamiðstöðin verða færð til og aðgengi bætt að þeim.

Eins og áður sagði hefur fyrirtækjum í verslunarmiðstöðinni fækkað og í maí var m.a. lögð niður afgreiðsla Sparisjóðsins á Suðurlandi sem var þar til húsa. Eftir því sem heimildir Sunnlenska segja er þó von á blómabúð í rýmið þar sem áður var Kaffi Kidda rót.

Fyrri greinUndirbúningur í fullum gangi
Næsta greinGrétar tekur við rekstri Endor