Jarðhitasýningin opnuð á ný

Fyrirtækið Orkusýn hefur tekið við rekstri jarðhitasýningarinnar í miðrými Hellisheiðarvirkjunar og opnaði þar að nýju 1. mars sl.

Forsvarsmenn Orkusýnar eru tveir fyrrverandi starfsmenn OR, sem stóðu að móttöku ferðafólks og kynningu á möguleikum jarðhitanýtingar hér á landi, þau Auður Björg Sigurjónsdóttir og Helgi Pétursson.

Árið 2009 fór gestafjöldi í virkjuninni í fyrsta skipti yfir 100 þúsund. Á jarðhitasýningunni geta gestir fylgst með flóknu gangverki jarðgufuvirkjunarinnar í rauntíma og sýning varpar einnig ljósi á þann þátt sem jarðhitinn og hitaveiturnar eiga í lífsgæðum hér á landi.

Virkjunin hefur verið fastur viðkomustaður á leið ferðamanna milli höfuðborgarinnar og náttúruperlnanna á Suðurlandi sem mynda Gullna hringinn svokallaða. Þá hefur hún verið fjölsótt af skólafólki á öllum stigum skólagöngunnar, íslensku sem útlendu. Erlendir þjóðhöfðingjar hafa líka gjarna haft þar viðkomu í heimsóknum sínum til Íslands.

Í miðrými Hellisheiðarvirkjunar er einnig gott kaffihús og verslun með íslenskt handverk. Jarðhitasýningin er opin alla sjö daga vikunnar frá kl. 9–17. Aðgangseyri er stillt í hóf, 700 kr. fyrir fullorðna, ókeypis fyrir börn að 18 ára aldri í fylgd með fullorðnum og 500 kr. fyrir manninn í hópi 10 eða fleiri.

Fyrri greinÞrastalundur opnar eftir vetrardvala
Næsta greinGOS kominn inn í 21. öldina