Jarðhitaskógurinn að Reykjum rannsakaður

Ein af afleiðingum Suðurlandsskjálftans í maí 2008 var að miklar breytingar urðu á útbreiðslu jarðhita í kringum Landbúnaðarháskólann að Reykjum í Ölfusi.

Þetta hafði m.a. í för með sér að hitna tók verulega undir 45 ára gömlum sitkagreniskógi sem vaxið hafði fram að því á venjulegum hrollköldum íslenskum jarðvegi.

Upphitunin er mismikil undir skóginum að Reykjum, allt frá því að vera brot úr gráðu þar sem langt er niður á jarðhitann og upp í allt að +52 °C þar sem grynnst er niður á jarðhitann. Jarðhitavatnið nær ekki að berast upp í rótarlagið og lítill lækur sem rennur í gegnum skóginn er algjörlega án áhrifa jarðhitavatns, þrátt fyrir að hann hitni upp í 32°C þegar hann rennur um svæðið.

Áhrif þessarar upphitunar urðu fljótlega augljós þar sem grenitrén á heitustu blettunum í skóginum drápust og blésu um koll. Náttúrulegur jarðvegshiti getur náð 15°C síðla sumars á Suðurlandi en á stöðum þar sem jarðvegshitinn fór upp fyrir 50-55°C (35-40°C hlýnun) þá hættu rætur trjánna að virka og þar með voru dagar þeirra brátt taldir. Stór svæði eru þó enn til staðar með heilbrigðum trjám þar sem upphitunin er á bilinu 0,1-35°C.

Á alþjóðlegri vísindaráðstefnu sem haldin var í sumar hér á landi um áhrif loftslagsbreytinga á virkni norðlægra vistkerfa var jarðhitaskógurinn að Reykjum sóttur heim. Þessi risavaxna náttúrulega upphitunartilraun í bakgarði Landbúnaðarháskólans vakti óskipta athygli vísindamannanna og það einróma álit þeirra að þarna væri á ferðinni ótrúlega spennandi aðstæður til rannsókna sem væru einstakar á heimsvísu.

Í kjölfar ráðstefnunnar var ákveðið að setja af stað forverkefni í samstarfi nokkurra vísindamanna við Landbúnaðarháskóla Íslands, Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, Háskóla Íslands og Oslóarháskóla í Noregi, Háskólans í Basel í Sviss og Amsterdamháskóla í Hollandi. Verkefnið hefur hlotið enska nafnið FORHOT (Natural soil warming in a Sitka spruce forest in Iceland) og verkefnisstjóri þess er Bjarni Diðrik Sigurðsson, LbhÍ.

Þessa dagana eru tveir erlendir framhaldsnemar að vinna að rannsóknum á svæðinu, auk íslensku sérfræðinganna. Doktorsneminn Armando Lenz fékk Evrópustyrk til að koma til Íslands frá Sviss og vinna um fimmtung af doktorsverkefni sínu í jarðhitaskóginum á Reykjum.

Aðrar rannsóknir hans fjalla um áhrif hækkaðs lofthita á trjávöxt við skógarmörk í svissnesku Ölpunum, þar sem stór tölvustýrð gróðurhús eru notuð til að hækka bæði lofthita og jarðvegshita náttúrulegra fjallaskóga um 5 °C. FORHOT verkefnið gerir honum hinsvegar kleyft að rannsaka áhrif hækkaðs jarðvegshita án teljandi áhrifa á lofthita.

Hinn nemandinn heitir Ella Thoen, BSc í líffræði frá Háskólanum í Osló. Hún er að gera rannsóknir á áhrifum jarðvegshita á svepprót sitkagrenis í samstafi við Eddu S. Oddsdóttur á Mógilsá.

Frá þessu er greint á skogur.is

Fyrri greinHimnaríki frumsýnt í kvöld
Næsta greinLöng bið eftir aðstoð lögreglu