Jarðgöng undir Reynisfjall á skipulagi

Nýtt vegastæði og jarðgöng undir Reynisfjall eru nú í nýjum drögum að aðalskipulagi Mýrdalshrepps fyrir 2012-2028.

Að sögn Elínar Einarsdóttur, oddvita Mýrdalshrepps, liggur fyrir hvað meirihluti sveitarstjórnar og meirihluti íbúa vill gera. Ljóst væri þó að ekki yrði að fullu sátt um málið. ,,Í lýðræðisþjóðfélagi verður meirihlutinn að ráða,” sagði Elín í samtali við Sunnlenska.

Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem haldið var í Vík á dögunum, vakti athygli á því að vegurinn fyrir Reynisfjall er einn erfiðasti faratálmi á þjóðvegi 1 allt austur á land. Nauðsynlegt væri að koma jarðgöngum um Reynisfjalli á samgönguáætlun.

Elín segir að með því að ljúka skipulagsmálum væri sveitarfélagið að gera sitt til að koma verkinu á laggirnar. Eftir sem áður væri það fjárveitingavaldsins í landinu að ákveða hvenær ráðist verður í verkið.

Frestur til að gera athugasemdir eða koma með ábendingar við drög að aðalskipulaginu er til og með 21. nóvember nk.