Jákvætt árshlutauppgjör hjá Árborg

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sveitarfélagið Árborg hefur náð góðum árangri í rekstri samkvæmt nýbirtu árshlutauppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2025. Uppgjörið sýnir jákvæða þróun og áframhaldandi framfarir í fjármálum sveitarfélagsins.

Samkvæmt uppgjörinu hefur áfram tekist að bæta rekstrarstöðu sveitarfélagsins, sem er að skila sér í betri fjárhagslegri stöðu og auknum stöðugleika.

„Það er mikilvægur áfangi að afkoma A- og B-hluta í sex mánaða uppgjörinu sé jákvæð um 352 milljónir króna. Rekstrarhagræðing, minni skuldsetning og auknar tekjur, m.a. í formi sölu byggingarréttar, íbúafjölgunar og álags á útsvarið árið 2024 hafa áhrif á þessa góðu niðurstöðu,“ segir í tilkynningu frá sveitarfélaginu.

„Við fögnum árangrinum sem er samstarfsverkefni kjörinna fulltrúa, starfsmanna og íbúa. Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut og tryggja ábyrgan rekstur sveitarfélagsins. Þessi jákvæða niðurstaða skapar þann grunn sem við höfum talað fyrir til þess að geta lækkað álögur á íbúa. Því íbúar eiga að njóta árangursins,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar.

Hann segir að framundan séu áframhaldandi áskoranir við að gera grunnrekstur sveitarfélagsins, svokallaðan A-hluta, sjálfbæran á næstu árum. „Mikill árangur hefur náðst og er sveitarfélagið staðráðið í að nýta þennan góða árangur sem grunn til frekari uppbyggingar og þjónustu við íbúa,“ bætir Bragi við.

6 mánaða árshlutauppgjör Árborgar 2025

Fyrri greinDóra & Döðlurnar í Eyvindartungu
Næsta greinGuðmunda skoraði tímamótamark