Fjárhagsáætlun Grímsnes- og Grafningshrepps fyrir árið 2026 var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar fyrir jól. Rekstrarniðurstaða ársins 2025 er jákvæð og sömuleiðis er gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu árið 2026.
Samkvæmt útkomuspá A- og B- hluta verður rekstrarniðurstaða ársins 2025 jákvæð sem nemur um 194 milljónum króna. Gert er ráð fyrir að samantekin afkoma af A- og B-hluta verði jákvæð upp á 368 milljónir króna árið 2026.
Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting ársins 2026 nemi tæpum 900 milljónum króna og ber þar helst að nefna slökkvistöð við Þinggerði, gatnagerð og stækkun Kerhólsskóla yfir í efri hæð núverandi stjórnsýsluhúss. Þá eru einnig áætlaðar framkvæmdir við aðkomu að leikskóladeild Kerhólsskóla, lagning hjólastíga auk fjölda annarra smærri verkefna og viðhaldsverkefna.
Fasteignaskattar lækka
Álagningarhlutfall fasteignaskatts mun lækkaa á árinu 2026, á íbúðarhúsnæði (A-flokk) úr 0,425% í 0,415% og á atvinnuhúsnæði (C-flokk) úr 1,60% í 1,55%. Álagningarhlutfall fasteignaskatts á stofnanir (B-flokk) verður óbreytt 1,32% sem og hlutfall á lóðaleigu. Útsvarsprósentan verður sú sama og áður 14,14 prósent.
Reksturinn er sjálfbær
„Lykiltölur sýna vaxandi tekjur og jákvæða rekstrarniðurstöðu á tímabilinu, samhliða auknum íbúafjölda. Efnahagsstaða sveitarfélagsins styrkist jafnframt, þar sem eiginfjárhlutfall hækkar og skuldir lækka í hlutfalli við eignir. Veltufjárhlutfall batnar einnig, sem bendir til aukins greiðsluhæfis og sterkari lausafjárstöðu. Í heild sinni endurspegla lykiltölur fjárhagsáætlunar að reksturinn er sjálfbær og í samræmi við markmið sveitarfélagsins um framsýni og ábyrga fjármálastjórn,“ segir Fjóla St. Kristinsdóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafningshrepps.

