Jákvæð rekstrarniðurstaða í Rangárþingi ytra

Hella. Ljósmynd/Rangárþing ytra

Rekstrarniðurstaða Rangárþings ytra var jákvæð um 164 milljónir króna árið 2019. Ársreikningurinn var samþykktur á fundi sveitarstjórnar þann 11. júní síðastliðinn.

Rekstrartekjur A og B hluta námu rúmum tveimur milljörðum króna og eigið fé sveitarfélagsins í árslok var rúmlega voru tæpir tveir milljarðar króna.

Ársreikningurinn hefur að geyma samantekin reikningsskil fyrir þær rekstrareiningar sem falla undir A og B hluta starfsemi sveitarfélagsins. Í A hluta er öll starfsemi sem að hluta, eða að öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum, en auk aðalsjóðs er um að ræða eignasjóð og þjónustumiðstöð. Til B hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, en rekstur þessara fyrirtækja er fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtæki sem falla undir B hluta eru Leiguíbúðir, Félagslegar íbúðir, Fráveita, Vatnsveita, Rangárljós og Suðurlandsvegur 1-3 hf.

Sveitarstjórn samþykkti ársreikninginn samhljóða og færði jafnframt starfsfólki sveitarfélagsins þakkir fyrir góða vinnu við rekstur innan ramma fjárhagsáætlunar sem skilar sér í bættri afkomu.

Fyrri greinVinna hafin við bráðabirgðabrú yfir Jökulsá á Sólheimasandi
Næsta greinÁrborg úr leik eftir hetjulega baráttu