Jakob Franz og Emma Líf fengu góðar gjafir

Sjúkraflutningamenn í Árnessýslu heimsóttu í dag tvær fjölskyldur á Selfossi og færðu þeim peningagjöf sem er ágóði af árlegri dagatalssölu sjúkraflutningamannanna.

Fyrst heimsóttu sjúkraflutningamennirnir Jakob Franz, 7 ára gamlan son Helgu Flosadóttur og Grétars Páls Gunnarssonar. Jakob Franz er þriðji í systkinaröðinni, eldri eru Gunnar Flosi, 13 ára og Birgitta Fanný 8 ára, og síðar bættist við Hildur Lilja, 3 ára.

Jakob Franz fékk greiningu tveggja og hálfs árs gamall en hann er með dæmigerða einhverfu og þroskahömlur. Fyrir ári síðan var reiknaður þroski hans að meðaltali á við 28 mánaða gamalt barn. Í fyrstu reyndi þetta mikið á fjölskylduna þar sem tjáskipti voru erfið og Jakobi sárnaði þegar enginn skildi hann. En í dag er lífið miklu léttara, en erfiðleikarnir öðruvísi.

Hann byrjaði tæplega tveggja ára gamall að ganga og var þá í sjúkraþjálfun enda mikill spítukarl. Síðar fór hann í iðjuþjálfun sem hjálpar honum mjög mikið. Hann er farinn að myndast við að tala, byrjaði í talþjálfun snemmsumars á þessu ári og nær orðið 3-4 orða setningum. Hann er duglegur að gera sig skiljanlegan með myndum eða sýnir hvað hann vill. Jakob Franz er skemmtilegur, stríðinn og mikill prakkari en getur líka verið ofurviðkvæmur. Hann elskar tölvur, sund og snjó, en þolir ekki fugla.

Eftir heimsóknina til Jakobs heimsóttu sjúkraflutningamennirnir Emmu Líf, 2 ára dóttur Svanhildar Jónsdóttur og Ólafs Tage Bjarnasonar. Emma Líf varð fyrir heilablæðingu á meðgöngu og hlaut af því alvarlegar skemmdir á heilavef sem orsaka fjórlömun, þroskahömlun, sjónskerðingu, svefnvandamál og flogaveiki. Til að draga saman fötlun Emmu er talað um CP heilalömun.

Emma þarfnast aðstoðar við allar daglegar athafnir. Hún er í leikskólanum Jötunheimar þar sem hennar helsta þroskaörvun og ánægja er leikur og hljóð barnanna, sem hafa tekið einstaklega vel á móti Emmu Líf. Hún á 5 ára systir sem heitir Hanna Elísa Ólafsdóttir. Hún er einnig í Jötunheimum og er mjög dugleg stóra systir.

Svanhildur og Ólafur Tage eru bæði fædd og uppalin á Selfossi en hafa búið annarsstaðar í nokkur ár. „Við vorum aðeins efins um að flytja aftur á Selfoss, í minna samfélag, en það er óhætt að segja að það hafi gengið vel og við höfum fengið frábærar móttökur á leikskólanum og heilsugæslunni og raunar í samfélaginu öllu og okkur langar að koma á framfæri kærum þökkum fyrir það,“ sagði Ólafur Tage við afhendingu gjafanna.

Báðar fjölskyldurnar fengu 250 þúsund króna peningagjöf frá sjúkraflutningamönnunum ásamt gjafabréfum fyrir alla fjölskylduna frá Bylgjum og börtum, matvörur og jólanammi frá Nettó og Bónus og gjafabréf í Tryggvaskála og Hamborgarabúlluna, umfelgun á bíl hjá Sólningu auk flugelda frá Björgunarfélagi Árborgar og allir fjölskyldumeðlimir fengu glaðning frá Íslandsbanka.

„Þetta er í áttunda skipti sem við afhendum styrki og þetta er alltaf jafn gefandi og skemmtilegur dagur fyrir okkur. Það gefur okkur ofboðslega mikið að sjá brosið og hlýjuna og þakklætið frá fólkinu,“ sagði Stefán Pétursson, formaður Félags sjúkraflutningamanna í Árnessýslu í samtali við sunnlenska.is. „Við eum búnir að standa í sölu á dagatalinu allan desember og það gengur alltaf jafn vel og við þökkum fólki kærlega fyrir viðtökurnar. Eins viljum við þakka þeim fyrirtækjum sem aðstoðuðu okkur og lögðu til gjafir en allir þessir aðilar voru meira en tilbúnir að leggja okkur lið,“ sagði Stefán.


Sjúkraflutningamennirnir ásamt Emmu Líf og fjölskyldu hennar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinGjaldfrjáls leikskóli frá 1. ágúst
Næsta greinHjálparsveitin bjargaði jólasveinunum