Ívar komst í fjórtán manna úrslit

Undankeppnin fyrir Ólympíuleikana í eðlisfræði var haldin í framhaldsskólum landsins í byrjun febrúar. Einn nemandi úr Fjölbrautaskóla Suðurlands, Ívar Örn Kristjánsson, komst í fjórtán manna úrslit.

Um 140 framhaldsskólanemendur af öllu landinu tóku þátt í undankeppninni, þar af sex nemendur úr FSu. Af þessum 140 nemendum var síðan fjórtán stigahæstu nemendunum boðið að taka þátt í úrslitakeppninni og fengu þeir einnig bókaverðlaun fyrir góðan árangur í undankeppninni.

Ívar Örn var eini nemandinn úr FSu sem komst í úrslitin, sem fram fóru um miðjan mars í Háskóla Íslands. Úrslitakeppnin skiptist í tvo hluta, annarsvegar fræðilegan og hinsvegar verklegan. Prófað var úr helsta efni eðlisfræðiáfanganna sem kenndir eru í framhaldskólum landsins og í verklega hlutanum þurfti að gera tvær tilraunir og skrifa skýrslu um þær. Ívar sagði þessi keppni vera „feikilega skemmtilega og var frábær heiður að vera valinn úr 140 manna hópi til þess að taka þátt“.

Fimm stigahæstu nemendurnir fengu svo boð um að fara á Ólympíuleikana í eðlisfræði sem eru haldnir í Kazakstan þetta árið.

Fyrri greinHugum að líkamsstöðunni
Næsta greinTaka efni úr tíu námum í Bláskógabyggð