Ítrekuð skemmdarverk á Selfossvelli

Rúða var brotin í gámnum fyrir helgi og eldur lagður að í gær. Ljósmynd/Aðsend

Skemmdarvargar hafa ítrekað lagt leið sína á íþróttavallarsvæðið á Selfossi og valdið þar ýmiskonar tjóni á síðustu vikum.

„Við erum búin að vera að eiga við þetta í langan tíma. Ýmis skemmdarverk og almennt slæm umgengni á vallarsvæðinu. Á fimmtudagskvöld eða aðfaranótt föstudags var til dæmis brotin rúða í fjölmiðlagámi við aðalvöllinn, sem við lokuðum fyrir með spjaldi og seinnipartinn í gær var kveikt í spjaldinu þannig að skemmdir urðu á gámnum,“ sagði Sveinbjörn Másson, vallarstjóri, í samtali við sunnlenska.is.

Skemmdarverkin hafa verið tilkynnt til lögreglunnar og þeir sem hafa upplýsingar um óvenjulegar mannaferðir við íþróttavöllinn á fimmtudagskvöld eða síðdegis í gær beðnir um að láta lögregluna vita.

„Við erum ítrekað að lenda í þessu þannig að það er um að gera að hvetja fólk til þess að hafa augun opin ef það á leið um vallarsvæðið og láta lögreglu vita ef það sér eitthvað óvenjulegt,“ segir Sveinbjörn.

Fyrri greinKIA Gullhringnum frestað fram í september
Næsta greinÖrmagna göngumenn á Sprengisandsleið