Ítrekaðar íkveikjur á Selfossi

Það var lítið eftir af ruslagámnum þegar slökkviliðið mætti á vettvang. Ljósmynd/BÁ

Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu var kallað til á Selfossi um klukkan 4 aðfaranótt laugardags þegar eldur varð laus í ruslagámi við Tryggvagötu.

Um var að ræða stóran plastgám og logaði glatt í honum þegar lögreglan kom á vettvang. Slökkviliðsmenn voru snöggir til og slökktu eldinn en þegar slökkvistarfi var að ljúka barst önnur tilkynning um eld í ruslagámi, nú við Vallaskóla.

Lögreglan segir í dagbók sinni að ljóst sé að eldsupptökin séu af mannavöldum og er þess óskað að þeir sem telja sig hafa upplýsingar um þau hafi samband við lögreglu.

Fleiri útköll af svipuðum toga hafa verið á Selfossi síðustu vikur. Talsvert tjón varð þegar ruslageymsla við Tryggvagötu 36 brann í lok október og áður hafði verið kveikt í ruslagámnum við Vallaskóla.

Fyrri grein98 í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinFreyja sigraði í Blítt og létt