Vegna ítrekaðra skemmdarverka sem hafa verið unnin á gámum á grenndarstöðinni við Torfastaði í Grafningi verður ekki hægt að losa sig við pappa og pappír þar næstu vikur.
Kveikt hefur verið í gámum á svæðinu og þarf að senda þá í viðgerð en gámarnir eru sérsmíðaðir fyrir grenndarstöðvarnar og ekki til fleiri varagámar að svo stöddu. Síðasti varagámurinn brann í gær.
Í tilkynningu frá Gámastöðinni Seyðishólum er biðlað til þeirra sem hafa orðið varir við grunsamlegar mannaferðir í kringum grenndarstöðina síðustu vikur eða kunna að hafa einhverjar upplýsingar um málið, að hafa samband við skrifstofu Grímsnes- og Grafningshrepps eða lögregluna á Suðurlandi.