Ítreka boðið á Borg

Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, hefur ítrekað boð sveitarfélagsins um að byggingarfulltrúi uppsveitanna fái aðstöðu á Borg í byggingu sem þar er að rísa.

Segir Gunnar mikil samlegðaráhrif fást fyrir byggðasamlagið við slíkan flutning þar sem starfsemin yrði þá til húsa með skrifstofu sveitarfélagsins.

Líkt og Sunnlenska hefur áður greint frá bauð Grímsnes- og Grafningshreppur byggingar- og skipulagsembættinu aðstöðu á Borg þegar ljóst var að samningaviðræður við ríkið um mögulega aðstöðu í Héraðsskólahúsinu á Laugarvatni drægjust úr hófi fram.

Bláskógabyggð andmælti gagnrýni Grímsnes- og Grafningshrepps um aðstöðuleysi embættisins og sagði næga aðstöðu að fá annars staðar á Laugarvatni. Ljóst er þó af síðustu bókun Grímsnes- og Grafningshrepps að sveitarfélagið ætlar að halda tilboði sínu til streitu.

Það var þó létt yfir Drífu Kristjánsdóttur oddvita Bláskógabyggðar þegar Sunnlenska hafði samband við hana vegna málsins. Sagði hún fulltrúa sveitarstjórnanna hafa rætt á móti, um að bjóða Grímsnes- og Grafningshreppi aðstöðu í Héraðsskólahúsinu ásamt bygginga- og skipulagsfulltrúaembættinu.

Að öllu gamni slepptu væru hins vegar hafnar óformlegar þreifingar á milli sveitarfélaga uppsveita Árnessýslu vegna sameiginlegra málefna á borð við skólamál í ljósi breyttra aðstæðna, ekki síst vegna bættra samgangna. „Það ríkir jákvæðni hjá sveitarfélögunum varðandi meira samstarf,“ segir Drífa þó óvíst sé að úr því verði fyrir sumarið.

Fyrri greinFramkvæmdaleyfið afturkallað
Næsta greinViðbúnaðarstig lækkað