Ítrekaðar íkveikjur í sinu í íbúðarhverfi

Lögreglan á Selfossi vill hvetja foreldra til þess að líta til með börnum sínum en grunur leikur á að sinubrunar sem tilkynntir hafa verið til lögreglu í liðinni viku séu af völdum barna eða unglinga.

Ábendingar hafa borist lögreglu um að sést hafi til drengs í svartri hettupeysu á vettvangi sinubruna við Berghóla í dag um kl. 15:20.

Þetta er í fjórða skiptið á fjórum dögum sem slökkviliðið á Selfossi er kallað út vegna sinubruna í þessu hverfi. Bruninn í dag var í gróðurbelti milli Berghóla og Lambhaga þar sem fáir metrar eru á milli húsa.

Málið er litið alvarlegum augum en ekki þarf að fjölyrða um það tjón sem af þessu getur orðið, bæði vegna reyks sem fer um öll hús og eldhættu nái sinueldurinn í annan eldsmat.

Fyrri greinAndri Freyr í KFR
Næsta greinEnn einn sinubruninn í kvöld