Ístak bauð lægst í Eldvatnsbrúna

Ístak hf. í Mosfellsbæ átti lægsta tilboðið í nýbyggingu Skaftártunguvegar og byggingu nýrrar brúar á Eldvatn í Skaftárhreppi.

Nýr vegkafli er 920 m að lengd frá Hringvegi, um Eldvatn og tengist núverandi Skaftártunguvegi við Eystri-Ása. Ný brú á Eldvatn er 80 m löng stálbogabrú.

Tvö tilboð bárust í verkið og voru þau bæði talsvert yfir áætluðum verktakakostnaði, sem var 388 milljónir króna.

Tilboð Ístaks hljóðaði upp á tæpar 615,6 milljónir króna, sem er 158,7% af kostnaðaráætlun. Munck Íslandi ehf í Kópavogi átti hitt tilboðið sem barst og var það tæpar 637,9 milljónir króna eða 164,4% af kostnaðaráætlun.

Núverandi brú yfir Eldvatn seig eftir mikið landbrot sem varð undir austurenda hennar í stóra Skaftárhlaupinu í október 2015.

Verkinu á að vera lokið þann 1. nóvember á næsta ári.

Fyrri greinStærsta smellinn má bara spila á aðventunni
Næsta greinUpplestur úr jólabókum