Ísólfur sveitarstjóri og Guðlaug oddviti

Ísólfur Gylfi Pálmason verður sveitarstjóri í Rangárþingi eystra og Guðlaug Ósk Svansdóttir verður oddviti næstu tvö ár.

Nýr meirihluti framsóknarmanna og annarra framfarasinna tekur við stjórntaumunum í sveitarfélaginu þriðjudaginn 15. júní nk. En framboðið fékk 54% greiddra atkvæða og hreinan meirihluta í sveitarstjórnarkosningunum.

Haukur Guðni Kristjánsson verður formaður byggðaráðs fyrstu tvö árin en að þeim liðnum munu Haukur og Guðlaug hafa hlutverkaskipti.

Í samtali við sunnlenska.is sagði Ísólfur Gylfi að helstu verkefni nýs meirihluta verði að fást við áhrif eldgossins í Eyjafjallajökli, atvinnu- velferðarmál. Einnig er heilsuefling og forvarnarstarf ofarlega á stefnuskrá meirihlutans.