Ísólfur Gylfi: Stoltur af listanum

Framsóknarmenn og aðrir framfarasinnar í Rangárþingi eystra samþykktu framboðslista sinn fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á fjölmennu íbúaþingi á Hvolsvelli í gær.

Litlar breytingar urðu á þeirri uppröðun sem kynnt var í lok mars en Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri í Hrunamannahreppi og fyrrverandi alþingismaður, leiðir listann.

„Ég er stoltur að leiða þennan lista, hann er samsettur af ungu og kröftugu fólki með fjölbreytta reynslu og fjölbreytilega menntun og einnig reyndu félagsmálafólki,” sagði Ísólfur Gylfi í samtali við sunnlenska.is.

„Kosningarnar leggjast vel í okkur þrátt fyrir að hugur okkar standi hjá því fólki sem vest hefur orðið úti varðandi eldgosið í Eyjafjallajökli. Við megum hins vegar aldrei gleyma því að lífið heldur áfram og þegar er hafið uppbyggingarstarf. Það er einnig til mikillar fyrirmyndar hvernig staðið hefur verið að málum að hálfu sýslumanns, lögreglunnar, sveitarstjórnar, björgunarsveita, rauðakrossins og allra þeirra sem komið hafa að þeim málum,” sagði Ísólfur Gylfi að lokum.

Listinn er þannig skipaður:
1. Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri.
2. Guðlaug Ósk Svansdóttir, ferðamálafræðingur.
3. Lilja Einarsdóttir, verðandi hjúkrunarfræðingur.
4. Haukur Guðni Kristjánsson, rekstrastjóri.
5. Ásta Brynjólfsdóttir, þroskaþjálfi
6. Oddný Steina Valsdóttir, bóndi og búfræðikandidat
7. Bergur Pálsson, sölumaður.
8. Gunnhildur Jónsdóttir, listamaður og nemi.
9. Helga Guðrún Lárusdóttir, háskólanemi.
10. Lárus Viðar Stefánsson, íþróttakennari
11. Ingibjörg Marmundsdóttir, félagsliði.
12. Ásta Halla Ólafsdóttir, garðyrkjufræðingur.
13. Sigurður Bjarni Sveinsson, nemi.
14. Sigrún Þórarinsdóttir, bóndi.

Fyrri greinNágrannavarsla leiddi til fíkniefnafundar
Næsta greinHefur það fínt í Mónakó