Íslenskur matur fyrir Íslendinga

Árni og Guðný, eigendur Fröken Selfoss. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Veitingastaðurinn Fröken Selfoss hefur endurhannað matseðilinn sinn frá grunni og leggur nú áherslu á sunnlenskt hráefni úr nærumhverfi.

Staðurinn opnaði með pompi og prakt í nýja miðbænum síðastliðið haust, þar sem var gert út á mikla stemningu, háværa tónlist, tapas rétti og aðra smárétti. Svokallaða partýstemningu.

„Við erum að fara í allt aðra stefnu. Það er ekki nógu góð tapas-stemning hérna á Selfossi. Það var bara ekki að virka. Við erum að reyna að búa til mat fyrir heimamanninn. Við ætlum að einblína á íslenskan mat fyrir Íslendinga en ferðamaðurinn fylgir auðvitað með líka,“ segir Árni Bergþór Hafdal Bjarnason, í samtali við sunnlenska.is. Árni rekur Fröken Selfoss ásamt eiginkonu sinni, Guðnýju Sif Jóhannsdóttur.

„Við erum að berjast við reyna að koma hádeginu af stað líka, við viljum hafa þetta sem heilsdagsstað. Í hádeginu bjóðum við upp á ódýra rétti, hádegisrétti, til dæmis plokkfisk og fjölbreytta fiskrétti,“ segir Guðný.

Matarkista Suðurlands
Á nýja matseðlinum verður áherslan lögð á íslenskt hráefni úr matarkistu Suðurlands. „Ég er búinn að skipta um birgja líka frá því að við skiptum um matseðil og er í raun og veru mest að skipta við fyrirtæki sem eiga uppruna sinn hér á Selfossi eða eru í kring. Ég hætti til dæmis að versla við Matfugl og fór að versla við Holta, þau eru bara við hliðina á okkur,“ segir Árni og bætir því við að á matseðli megi einnig finna sveitaskyr frá Efstadal, brauð frá GK bakaríi, tómata frá Sólheimum, jurtir frá Ártanga og repjuolíu frá Móður jörð.

Guðný segir að það þýði ekkert að stíla inn á ferðamennina í janúar og febrúar. „Það augljóslega virkar ekki. Við þurfum að keyra upp þessa hádegistraffík og að fólk sé ekki að brjóta veskið þegar það fer út að borða. Við ætlum að halda verðinu eins hagstæðu og við getum. Við erum til dæmis búin að lækka verðið á áfengi,“ segir Guðný en þess má geta að auk Fröken Selfoss reka þau hjónin Groovís og Veisluþjónustu Suðurlands og eru nýfarin af stað með veisluþjónustu Fröken Selfoss.

Á nýja matseðinum er áhersla lögð á íslenskt hráefni. Ljósmynd/Hildur Jones

Betri þjónusta með tilkomu nýja matseðilsins
Guðný og Árni segja að nýji matseðilinn sé enn í þróun. „Í framtíðinni munu örugglega einhverjir réttir detta út og aðrir koma inn á meðan við erum að finna það sem virkar. Við héldum einhverjum þremur réttum af gamla matseðlinum sem eru þá seldir sem forréttir. Núna erum við ekki með tapas bara forrétti og aðalrétti og það einfaldar þjónustuna rosalega. Hitt var svo mannfrekt og rosalega dýrt í rekstri. Hver aðili var að fá þrjá rétti og snertingar á þjónustu við hvert borð var bara alltof mikið. Við þurfum örugglega helmingi minna af starfsfólki í þetta.“

„Við fundum bara þegar við skiptum um seðil hvað allt varð auðveldara og þá fá allir líka miklu betri þjónustu. Við náum að stjana meira við gestina okkar,“ segir Árni.

Nýji matseðill hefur fengið mjög góðar viðtökur. Ljósmynd/Hildur Jones

Lengri opnunartími
Með tilkomu nýs matseðils breytist líka opnunartíminn á Fröken Selfoss. „Opnunartíminn er núna frá 11:30 til 22:00, alla daga. Eldhúsið lokar 21:30. Við erum samt að spá að hafa eldhúsið lengur opið um helgar. Við fundum það alveg um síðustu helgi að það var þörf á að hafa það lengur opið.“

Guðný segir að stemningin á Fröken Selfoss hafi áður verið bara á kvöldin og um helgar. „Núna leggjum við áherslu á heilsdagsopnun – að fólk sé að koma í hádeginu og allan daginn. Það gekk ekki að fólk væri að koma svona sjaldan upp á að reka heilan veitingastað. Núna erum við komin í samkeppni við Mathöllina. Við erum ekki með streetfood en við erum með mannamat. Bara góður matur, íslenskur matur. En hjá okkur er þér þjónað til borðs ólíkt Mathöllinni og þú getur þá setið með þeim sem þú ætlar borða með án þess að allir séu að fara á sitthvorn staðinn að panta sér mat.“

Besti fiskurinn kemur frá Þorlákshöfn
Vika er síðan þau hjónin breyttu matseðlinum og hafa viðtökurnar verið mjög góðar. „Sjávarréttapastað er búið að vera algjör bomba og fólk er að fíla það mjög vel. Bleikjan hefur líka verið að fara mjög vel af stað en við erum mögulega að fara að skipta henni út fyrir lax,“ segir Guðný.

Árni segir að þau hafi alltaf fengið fisk úr Þorlákshöfn. „Fiskurinn þaðan er sá lang besti á landinu. Hann endist ferskur í viku án vandamála því að hann tekur ekki millilendingu hjá birgja í Reykjavík. Líka þykk og góð stykki og allt á skinni.“

Fælir fólk frá hvað staðurinn er flottur
Þau segjast heyra af því að fólk veigri sér stundum við að koma inn á Fröken Selfoss því það haldi að þetta sé svo fínn staður. „Ég heyri þetta stundum þegar ég er úti að brasa og heyri fólk tala saman um staðina hérna þegar það labbar framhjá. „Já, þarna er Mathöllin, þarna er Messinn og þarna er bara fínn staður. Förum bara í Mathöllina.“ Fólk heldur að við séum bara fínn staður og það er alveg ótrúlegt að það sé að vinna gegn okkur hvað við lögðum mikið púður í útlitið á staðnum.“

„Áherslurnar eru líka búnar að breytast hjá okkur. Við tókum u-beygju. Við vorum skemmtileg og hress, en núna ætlum við að vera kósý og notaleg, staður sem þér mun alltaf líða vel á. Það er hlýlegt hérna inni og gott að setjast niður og borða. Við spilum eingöngu íslenska tónlist núna. Það er alltaf hægt að fá hamborgara á matseðli, hvort sem það er í hádeginu eða á kvöldin. Við erum svo að fara að byrja á takeaway í vefverslun og með Wolt núna í vikunni,“ segir Árni að lokum.

Hamborgarinn er sívinsæll. Ljósmynd/Hildur Jones
Fyrri greinGunnar Nelson heimsótti Berserki BJJ
Næsta greinÖnnur gul viðvörun