Íslenskar sauðamjólkurvörur til sölu á Selfossi

Ann-Marie við konfektgerð. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Konfekt með karamellufyllingu úr sauðamjólk er meðal þeirra vara sem eru til sölu í Matarbúri verslunar Krónunnar á Selfossi, en þar er að finna matvæli frá smáframleiðendum.

Konfektið kemur frá Sauðagulli sem er eina íslenska fyrirtækið með vörur úr sauðamjólk á markaði.

„Þegar ég fluttist til Íslands árið 2016 sá ég fullt af kindum en mér til mikillar undrunar voru engar afurðir til úr sauðamjólk,“ segir Ann-Marie Schlutz, stofnandi Sauðagulls.

Það var haustið 2018 sem Ann-Marie byrjaði að mjólka kindur á búi tengdafjölskyldu sinnar að Egilsstöðum í Fljótsdalshreppi. „Ég fékk að kynnast því að hagur sauðfjárbænda hérlendis er ekki góður. Með framtaki mínu vil ég veita íslenskum sauðfjárbændum innblástur um leið og ég vonast til að efla íslenskar sveitir,“ segir hún.

Fyrstu vörurnar komu síðan á markað fyrir ári, annars vegar ostur gerður eftir fetauppskrift og hins vegar konfektið. Vörurnar voru aðeins seldar austur á Héraði í fyrstu en fengu frábærar viðtökur þannig að þær seldust upp. Að þessu sinni er fyrirtækið að taka sín fyrstu skref með að prófa að selja vörur sínar utan heimahaganna.

Verslun Krónunnar á Selfossi er sem stendur önnur tveggja verslana þar sem konfektið er til sölu í Matarbúrinu, sérstöku svæði þar sem finna má vörur frá framleiðendum innan vébanda Samtaka smáframleiðenda.

„Það er nauðsynlegt fyrir smáframleiðendur að hafa með sér samtök til að nýta samtakamáttinn og það er frábært að Krónan hafi verið tilbúin að taka inn vörurnar okkar. Mér finnst líka sérstaklega gaman að konfektið mitt sé til sölu á Selfossi því ég á góða vinkonu þaðan sem hefur hjálpað mér mikið í þróunarferlinu,“ segir Ann-Marie að lokum.

Sauðagull á Facebook

Ann-Marie við mjaltir af sauðfé. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson
Konfekt frá Sauðagulli. Ljósmynd/Sauðagull
Fyrri greinStöðuhýsi slitnaði aftan úr bíl
Næsta greinKynningarfundur um viðauka við landsskipulagsstefnu