Íslenska sumarið sett í kökur

Anna Halla, Jónína Guðný og Steinunn Erla með verðlaunin eftir keppni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það hefði mátt skera andrúmsloftið á Konungskaffi á Selfossi með kökuhníf, slík var spennan þegar úrslitin í Kökukeppni Kaffi Krúsar og Konungskaffis voru tilkynnt í dag. Metnaður keppenda var mikill, kökurnar bragðgóðar og hver annarri glæsilegri.

Fallegar kökur, fremst er sú frumlegasta. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Bestu brauðtertuna, skonsutertu með hangikjöti, átti Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir frá Reykjavík en innblásturinn að kökunni er að norðan. Að sögn dómnefndar var um virkilega góða tertu að ræða, allir þættir bragðgóðir og skína í gegn. „Þetta er augljós klassíker, kjarninn í íslensku sveitaeldhúsi,“ sagði dómnefndin.

Það var Jónína Guðný Jóhannsdóttir á Selfossi sem átti bestu ostakökuna, Sumarsælu, og var álit dómnefndar einróma. „Besta kakan, fjögur lög af mismunandi áferð sem tóna fullkomlega saman. Sumarsæla í munni stendur fullkomlega undir nafni,“ sagði dómnefndin.

Anna Halla Hallsdóttir í Hveragerði átti frumlegustu kökuna, rabbarbara- og engifer ostaköku. Dómnefndin var dolfallin og talaði um að þarna væri „íslenska sumarið sett í köku. Rabbarbara og engifer fusion bræðingur sem tónar vel saman og er spennandi nýjung.“

Dómnefndin dæmir kökurnar af útliti. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Dómnefndinni vandi á höndum
Dómnefndina skipuðu Ragnar Freyr Ingvarsson, læknirinn í eldhúsinu sem var formaður dómnefndar, Anna Árnadóttir, stofnandi Kaffi Krúsar, Torfi Ragnar Sigurðsson, sælkeri, Valdimar Bragason, fjölmiðlamaður, Kristinn Geir Pálsson, gullmerkishafi KKÍ, Árdís Birgisdóttir, konditornemi, Guðmundur Karl Sigurdórsson, matgæðingur og Ída Sofia Grundberg, kökusérfræðingur.

Óhætt er að segja að dómnefndinni hafi verið mikill vandi á höndum en gefin voru stig fyrir bragð og útlit og var keppnin gríðarlega jöfn og spennandi.

Silja Hrund sker ostakökur ofan í dómnefndina. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Keppnin er komin til að vera
Silja Hrund Einarsdóttir hjá Konungskaffi var í skýjunum með vel heppnaða keppni. „Þátttakan var frábær og metnaðurinn mikill. Vinningsterturnar verða í boði á Kaffi Krús og Konungskaffi á næstu vikum og jafnvel nokkrar fleiri, því það voru nokkrar mjög vel heppnaðar kökur sem slógu í gegn hjá dómnefndinni. Þessi keppni er komin til að vera og ég er strax farin að hlakka til keppninnar á næsta ári,“ sagði Silja eftir keppni.

Bræðurnir Kristján á Konungskaffi og Tómas á Krúsinni skera niður girnilegar brauðtertur. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Dómnefndin bragðprófar ostakökurnar. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Metnaðurinn var mikill og margar kökurnar sannkölluð listaverk. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen
Keppnin vakti mikla athygli gesta í miðbænum sem fylgdust spenntir með. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Jónína Guðný með Sumarsæluna sem sigraði í skyr- og ostakökuflokknum. Ljósmynd/Silja Hrund Einarsdóttir
Rabbarbara- og engifer ostakaka var valin frumlegasta kakan. Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson
Skonsuterta með hangikjötssalati var valin besta brauðtertan. Ljósmynd/Ragnar Freyr Ingvarsson

 

Fyrri grein„Heima“ er á Hellu og í New York
Næsta greinUppsveitamenn áttu ekki erindi í Miðbæinn