Íslenska gámafélagið bauð lægst

Íslenska gámafélagið bauð lægst í báða tilboðsliði í útboði Sveitarfélagsins Árborgar vegna sorphirðu. Þrír aðilar tóku þátt í útboðinu.

Í fyrsta lagi var boðin út sorphirða fyrir heimili og stofnanir í Árborg til þriggja ára og lýtur útboðið að losun sorp og pappatunna og akstur á móttökusvæði Sorpu í Reykjavík. Tilboð Íslenska gámafélagsins var upp á tæpar 99 milljónir, Gámaþjónustan bauð rúmar 122 milljónir og AK flutningar 144 milljónir. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á rúmar 129 milljónir.

Þá var einnig boðin út þjónusta við gámastöð Árborgar til þriggja ára og þar var Íslenska gámafélagið einnig lægst, með tilboð upp á tæpar 22 milljónir, Gámaþjónustan bauð þar tæpar 26 milljónir og AK flutningar 35 milljónir. Kostnaðaráætlun á þann hluta hljóðaði upp á 26,5 milljónir króna.

Tilboðin verða yfirfarin og rædd á fundi bæjarráðs Árborgar í vikunni.

Gámaþjónustan lagði fram bókun við opnun tilboðanna þar sem fyrirtækið telur að útboðin séu marklaus það sem þau séu byggð á ólögmætri ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna tilboðum fyrr í vetur, þar sem Gámaþjónustan bauð lægst.

Því áskilji Gámaþjónustan sér rétt til skaðabóta vegna þeirrar ólögmætu ákvörðunar óháð niðurstöðu þessa útboðs, líkt og segir í bókun þeirra.

Fyrri greinRangæingar töpuðu
Næsta greinSelfyssingum spáð falli