Íslandsteppið slegið á milljón

Íslandsteppið, bútasaumsteppi eftir Jónínu Huldu Gunnlaugsdóttur á Selfossi, var slegið á eina milljón króna á uppboði á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi í dag.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður, bauð teppið upp og var lágmarksboð 600 þúsund krónur. Friðrik Pálsson, hótelhaldari á Hótel Rangá, var sá eini sem bauð í teppið, eina milljón króna en ágóðinn af uppboðinu rennur til Barnaheilla.

Teppið verður hengt upp á Hótel Rangá en Jónína lagði í það fimmhundruð vinnustundir á þremur árum. Hún var hrærð að uppboðinu loknu en víða sáust tár á hvarmi meðal áhorfenda sem klöppuðu vel fyrir kaupandanum.

Uppboðið var síðasti liðurinn í dagskránni á sviðinu í bæjargarðinum en í kvöld verður sléttusöngur, flugeldasýning og dansleikir í bæjargarðinum og Hvítahúsinu.

Fyrri greinFrábær mæting í morgunmatinn
Næsta greinHamar á toppinn