Íslandsmet í „selfie“-myndatöku

Kennarar og nemendur úr Lágafellsskóla settu óvenjulegt Íslandsmet í skólabúðunum á Úlfljótsvatni í síðustu viku.

Metið fólst í sjálfsmyndatöku fyrir hópmynd, en alls voru teknar 80 sjálfsmyndir, eða „selfie“-myndir, sem síðan var raðað saman í eina hópmynd.

„Við gerðum þetta í fjallgöngu á Úlfljótsvatnsfjall,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir, dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni. „Þetta var hress og öflugur hópur og veðrið var upp á sitt besta svo þau stilltu sér upp í einfalda röð og smelltu öll af einni sjálfsmynd. Með því að raða þeim saman í eina mynd sést röðin eins og hún var. Við erum viss um að þetta sé Íslandsmet, áttatíu „selfie“-myndir teknar við sama tækifæri og úr verður ein hópmynd.“

Aðspurð segir Elín að sjálfsmyndatökur séu ekki fastur liður í dagskrá skólabúðanna. „Við erum voðalega lítið í slíku. Hinsvegar eru einkunnarorð skólabúðanna leikur, útivist, gleði, vinátta og áskoranir. Íslandsmetið féll ágætlega að þeim, enda aðallega til gamans gert þegar við tókum pásu í fjallgöngu. Það sást greinilega að sumir krakkanna hafa reynslu af slíkum myndatökum en við tókum þær skrefinu lengra og bjuggum til dálítið merkilega mynd úr til þess að gera hversdagslegri athöfn. Í raun er hér líka um listsköpun að ræða þar sem áttatíu listamenn vinna saman að einu verki. Kannski er það Íslandsmet líka?“

HÉR má sjá heildarmyndina á heimasíðu Útilífsmíðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni

Fyrri greinÍbúafundur á Hellu í kvöld
Næsta greinBrotist inn í íbúðarhús á Selfossi