Ísland fulltengt fyrir árslok 2025

Sigurður Ingi kynnnir árangurinn af Ísland ljóstengt á fundi í ráðuneytinu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Landsátakinu Ísland ljóstengt lýkur á þessu ári, en síðustu styrktarsamningar Fjarskiptasjóðs við sveitarfélög um ljósleiðarauppbyggingu í dreifbýli utan markaðssvæða voru undirritaðir í lok síðasta mánaðar.

Alls hafa 57 sveitarfélög hlotið styrki til að tengja um 6.200 styrkhæfa staði með ljósleiðara frá því að verkefnið hófst árið 2016 en á þeim tíma hefur ríkið hefur lagt 3.350 milljónir kr. til verkefnisins. Verkefnið hefur staðist áætlanir um kostnað og tíma þrátt fyrir um 60% aukningu á umfangi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti árangur og samfélagslegan ávinning af landsátakinu á kynningarfundi í ráðuneytinu í gær. Auk hans flutti formaður fjarskiptasjóðs ávarp, sveitarstjórnarfólk fjallaði um reynslu af Íslandi ljóstengt og loks kynnti höfundur skýrslunnar efni henni nánar.

Eitt meðsta byggðaverkefni seinni ára
„Ljósleiðaravæðingin er eitt mesta byggðaverkefni seinni ára í samstarfi við sveitarfélögin. Stórbættar fjarskiptatengingar hafa bylt forsendum búsetu og atvinnurekstrar í sveitum landsins. Landsátakið Ísland ljóstengt er framúrskarandi dæmi um samvinnu um sérstaka fjármögnun á vegum ríkis og sveitarfélaga til að jafna aðstöðumun milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það er afskaplega ánægjulegt að hafa gert síðustu samningana á grundvelli Ísland ljóstengt. Þau tímamót eru í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og mikilvægur áfangi á þeirri vegferð að lögheimili og fyrirtæki óháð búsetu eigi almennt kost á tengingu sem getur borið gígabita netsamband,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Byggðakjarnar á landsbyggðinni næstir á dagskrá
Á fundinum í gær kynnti Sigurður Ingi áform sín um næstu skref í ljósleiðaravæðingu á landsbyggðinni. „Ég hyggst svara ákalli um ljósleiðaravæðingu byggðakjarna og leggja grunn að nýju samvinnuverkefni, Ísland fulltengt, í samræmi við markmið fjarskiptaáætlunar um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins alls fyrir árslok 2025. Fjarskiptaráði og byggðamálaráði hefur verið falið að greina stöðuna á landsvísu í samvinnu við Póst- og fjarskiptastofnun, í því skyni að undirbyggja valkosti og ákvörðunartöku um aðkomu stjórnvalda ef á þarf að halda að einu brýnasta byggðamáli samtímans,“ sagði hann.

Ráðherra sagði að margt megi læra af skipulagi og framkvæmd Ísland ljóstengt. Það veganesti megi horfa til við undirbúning áframhaldandi uppbyggingu fjarskiptainnviða á landsvísu. Hann sagði að vonir hafi staðið til þess að ljósleiðaravæðing byggðakjarna færi fram samhliða Ísland ljóstengt verkefninu á markaðslegum forsendum en sú uppbygging hafi því miður ekki gengið eftir.

Fyrri greinHamar mætir Vestra í undanúrslitum
Næsta greinHamar vann Suðurlandsslaginn