Ísjaki sló út rafmagni

Ísjaki úr hlaupinu úr Grímsvötnum rakst í háspennumastur við Gýgjukvísl og slitnaði rafmagnslína í kjölfarið.

Þetta gerðist rétt fyrir kl. 16 í dag en rafmagnslaust var í rúmar 30 mínútur á Kirkjubæjarklaustri og í nágrenni á meðan starfsmenn Landsnets unnu að lagfæringum.

Rennslið í Gýgjukvísl eykst hægt og rólega og vatnamælingamenn og lögregla fylgjast grannt með þróun mála.

Almannavarnir lýstu í dag yfir óvissustigi, sem er lægsta háskastig almannavarna, þar sem jökulhlaup frá Grímsvötnum hafa komið af stað eldgosum, síðast árið 2004. Atburðarrásin sem nú er hafin gæti á síðari stigum leitt til þess að öryggi fólks, umhverfis eða byggðar er ógnað.