Íshellan hefur sigið um 15 metra

Grímsvötn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Rennsli í farvegi Gígjukvíslar heldur áfram að aukast og hefur líklega ekki enn náð hámarki við brúna á þjóðvegi 1. Vefmyndavélar sýna að áin hefur breitt meira úr sér frá því í gær og af þeim að dæma er áin enn undir því sem telst til venjulegs sumarrennslis.

Íshellan hefur sigið um 15 m á þeim stað þar sem mælitæki Jarðvísindastofnunar Háskólans eru staðsett og hefur að öllum líkindum náð botni Grímsvatna á þeim stað, en sigið getur haldið áfram á öðrum hluta íshellunar, nær Grímsfjalli, þar sem dýpi er meira. Ekki er enn farið að draga úr óróa vegna vatnsrennslis sem jarðskjálftamælir á Grímsfjalli nemur og því er rennsli út úr vötnunum líklega enn nálægt hámarki sem áætlað hefur verið í kringum 500 m3/s.

Jarðskjálfti um 2 að stærð mældist í nótt rétt norðaustur af Grímsvötnum, en engin merki sjást um aukna skjálftavirkni eða gosóróa.

Fyrri greinHvað er málþroskaröskun?
Næsta greinTaumur fékk styrk til plöntukaupa