Ís fyrir milljarð

Velta Kjörís í Hveragerði fór í fyrsta sinn yfir einn milljarð króna í veltu á einu starfsári. Þetta gerðist þann 21. nóvember síðastliðinn.

Að sögn Valdimars Hafsteinssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins er um tólf prósent veltuaukningu að ræða á milli ára. Liggur aukningin fyrst og fremst í aukinni sölu, en örlitlar verðlagshækkanir urðu þó í byrjun árs.

„Veðurfarið hjálpaði til, bæði framan af ári og lungann af sumrinu,“ segir Valdimar. Hann segir markaðshlutdeild fyrirtækisins á sama bili og verið hefur. „Við höfum mögulega unnið eitthvað á nú undanfarið,“ segir hann.

Hjá fyrirtækinu eru framleiddar tvær milljónir lítra af ís á ári hverju og ársverk þar eru fimmtíu að sögn Valdimars.

Fyrri greinVarað við grjóthruni undir Fjöllunum
Næsta greinEldur í bíl á Selfossi