ION hótel bauð hæst í veiðiréttinn

Tekjur Orkuveitunnar af veiðirétti við Þingvallavatn gætu nærri þrefaldast miðað við tilboð sem bárust í hann eftir opinbera verðfyrirspurn fyrirtækisins.

Opnunarfundur tilboða var í gær en tilboðsfjárhæðir eru yfir heildargreiðslur á þremur árum, 2015-2017, að báðum árum meðtöldum. Möguleiki er á tveggja ára framlengingu samnings um réttinn eftir þennan tíma.

ION hótel átti hæsta tilboðið, 13,7 milljónir króna en næst hæsta boðið átti Icelandoutfitters, rúmar 9,7 milljónir króna. Guðmundur Atli Ásgeirsson bauð rúmlega 8,7 milljónir króna, Veiðifélagið Heggnasi rúmar 7,9 milljónir króna og Stangaveiðifélag Reykjavíkur tæpar 7,6 milljónir króna.

Orkuveitan óskaði fyrst tilboða í veiðiréttinn vegna ársins 2014. Þá hafði veiði verið stunduð í Þorsteinsvík og Ölfusvatnsvík leyfislaust og eftirlitslítið um hríð. Umgengni um náttúru og fisk var slæm á stundum. ION hótel var þá hæstbjóðandi og endanleg samningsfjárhæð var um 1,6 milljónir. Tilboðin nú spanna að svara til 2,65 til 4,57 milljóna króna.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur ákvað fyrr á árinu að allar tekjur fyrirtækisins af veiðiréttinum muni renna til vísindarannsókna á lífríki Þingvallavatns. Orkuveitan er einn af leiðandi aðilum í samstarfi um vöktun á lífríki vatnsins. Fénu verður ráðstafað að höfðu samráði við samstarfsaðilana – Landsvirkjun, Umhverfisstofnun og Þjóðgarðinn á Þingvöllum – en hugur stjórnar Orkuveitunnar stendur til þess það muni einkum nýtast til frekari rannsókna á hinum merka urriðastofni í vatninu, sem þykir einstakur.

Verið er að fara yfir tilboðin.

Fyrri greinForhönnun á ljósleiðara hafin
Næsta greinValur tók völdin í síðari hálfleik