„Innkaupapokarnir eru aðeins toppurinn á ísjakanum“

Á nokkrum stöðum á Selfossi er hægt að fá lánaða fjölnota innkaupapoka með sér heim í stað þess að kaupa plastpoka. Það er hópurinn Pokastöðin Árborg sem stendur að verkefninu.

„Hugmyndin varð að veruleika eftir plastlausan september í fyrra. Við höfðum frétt af pokastöðinni á Höfn og ákváðum að hafa samband þangað og fengum í kjölfarið aðstoð við að koma okkur í gang og stofnuðum hópinn á Facebook. Við erum svo í sambandi við aðrar pokastöðvar á Íslandi,“ segir Margrét Einarsdóttir Long, hjá Pokastöðinni Árborg, í samtali við sunnlenska.is.

Pokastöðin Árborg hefur saumað og dreift alls 1.930 pokum á þessu fyrsta starfsári sínu.

Margrét segir að það séu almennir íbúar í sveitarfélaginu sem standa að verkefninu og að félagsskapurinn sé opinn öllum þeim sem hafa áhuga. „Þetta er fólk sem vill leggja sitt af mörkum til að minnka notkun plastpoka í samfélaginu. Allt starfið er unnið í sjálfboðavinnu en við höfum fengið styrki vegna kostnaðar eins og prentun á lógóinu okkar en við prentum allt sjálf,“ segir Margrét.

Allir geta eitthvað
Að sögn Margrétar raðast hlutverkin í hópnum eftir áhuga, reynslu og tíma þeirra sem taka þátt hverju sinni. „Sums staðar hittist fólk til dæmis einu sinni í viku og saumar saman en hjá okkur hefur skapast ákveðið framleiðsluferli. Sá sem saumar getur fengið allt tilsniðið með sér heim og saumað heima því að við erum með skipulagða verkaskiptingu. Það er sennilega vegna þess að í okkar hópi eru svo reynslumiklar manneskjur,“ segir Margrét.

„Það er þó enginn skipaður í eitt eða neitt. Sumir sníða aðrir prenta lógó, sauma, strauja eða safna efnum og sinna öðrum tilfallandi verkum. Allir kunna og geta eitthvað og nýju fólki er fundið hlutverk sem passar því. Svo höfum við vinnukvöld þar sem við hittumst, skipuleggjum og ræðum næstu skref,“ segir Margrét.

Mikil hugarfarsbreyting
Aðspurð segir Margrét viðtökurnar hafa verið góðar. „Okkur hefur verið afar vel tekið, bæði af meðborgurum okkar sem og forráðamönnum verslananna í bænum. Fólk hefur verið að koma með efni til okkar og þegar við höfum kynnt pokastöðina þá höfum við átt í mjög ánægjulegum samskiptum,“ en hægt er að nálgast pokana í Krambúðinni, Hannyrðabúðinni og Nettó á Selfossi.

„Það er greinilegt að það hefur orðið hugarfarsbreyting hjá mjög mörgum í samfélaginu gagnvart plastnotkun og innkaupapokarnir eru svo að segja aðeins toppurinn á ísjakanum hvað varðar plastnotkun okkar,“ segir Margrét og bendir á að til samanburðar sé aðeins ein virk pokastöð í Reykjavík en það sé þó að breytast.

Aldrei nóg af fólki, efni og tvinna
„Við viljum þakka öllum þeim sem hafa aðstoðað okkur á einhvern hátt. Það gefur okkur byr undir báða vængi og heldur verkefninu lifandi. Við tökum vel á móti nýju fólki því það er aldrei nóg af saumafólki, efni og tvinna,“ segir Margrét að lokum.

Miðvikudaginn 26. september mun Pokastöðin halda kynningarfund í Sunnulækjarskóla á Selfossi. Fundurinn byrjar kl. 20:00.

Þeir sem hafa áhuga á að gefa efni eða taka þátt í verkefninu með beinum hætti er bent á að hafa samband í gegnum Facebook hópinn Pokastöðin Árborg.

Fyrri greinÖruggur sigur á Akureyri
Næsta greinGóðir kaflar gegn meisturunum