Innbrotsþjófur setti þvottavél á hliðina

Um klukkan fimm á laugardagsmorgun vaknaði íbúi íbúðarhúss á Selfossi við mikinn hávaða. Þegar nánar var að gáð sá hann að einhver hafði ætlað að brjótast inn í húsið með því að skríða inn um þvottahúsglugga.

Við það fór þvottavél á hliðina með tilheyrandi látum. Húsráðandi sá til karlmanns ganga í átt frá húsinu. Honum lýst sem smávöxnum, í dökkri þunnri dúnúlpu. Allar líkur eru á að maðurinn hafi verið ölvaður. Lögreglan tekur við upplýsingum í síma 480 1010.

Á föstudag var tilkynnt um innbrot í tvo sumarbústaði í Vallarholti í Bláskógabyggð, skammt frá Reykholti. Í öðrum bústaðnum hafði mikið verið rótað til í skápum og á borðum. Einhverjum munum var stolið. Eigandinn hafði síðast verið í bústaðnum þremur vikum áður en hann kom að þessum ófögnuði. Innbrotsþjófurinn braut sér leið inn í húsin með því að spenna upp glugga.

Fyrri greinSagðist eiga týnt seðlaveski
Næsta greinLandsbankinn styður handboltann áfram