Innbrotsþjófur í gæsluvarðhald

Annar mannanna sem handtekinn var á Búrfellsvegi á föstudagsmorgun eftir að hafa kastað þýfi út á ferð var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 22. desember nk.

Eftir mikla hrinu innbrota í sumarbústaði í september bauð Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, LRH, samstarf við lögregluna á Selfossi að stöðva þessi hvimleiðu innbrot. Embættin stilltu saman strengi sína og skipulögðu eftirlit og upplýsingaöflun.

Margir vegfarendur voru stöðvaðir á vegum að og frá sumarbústaðahverfum í og við Árnessýslu. Snemma á föstudagsmorgun er lögreglumenn voru í einni af þessum eftirlitsferðum urðu þeir varir við kyrrstæða bifreið á Búrfellsvegi í Grímsnesi. Bifreiðinni var ekið af stað og lögreglumenn fylgdu henni eftir. Skömmu síðar sást að hlutum var kastað út úr bifreiðinni.

Eftir að akstur bifreiðarinnar var stöðvaður kom í ljós að í henni voru tveir ungir menn. Annar þeirra var þekktur af fjölda innbrota í Árnessýslu síðastliðið vor. Mennirnir höfðu losað sig við flatskjá og fleira eftir að eftirförin hósft.

Þeir höfðu um nóttina brotist í eina fjóra bústaði við Álftavatn og Sogið. Annar mannanna játaði innbrotin en hinn neitaði. Sá sem neitaði var með fjölda mála í vinnslu hjá LRH og lögreglunni á Selfossi.

LRH tók yfir málin og fór fram á síbrotagæslu yfir manninum. Héraðsdómur Reykjanes féllst á kröfu lögreglustjóra LRH og úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til 22. desember nk.