Innbrotahrina við Álftavatn

Lögreglunni á Selfossi hefur verið tilkynnt um átta innbrot í sumarhús við Álftavatn í Grímsnesi í síðustu viku.

Brotist var inn í fimm orlofshús í Selvík við Álftavatn. Þjófarnir spenntu upp glugga í húsunum og fjarlægðu úr þeim flatskjái.

Að auki var brotist inn í þrjá aðra sumarbústaði í einkaeigu sem standa við Álftavatn. Úr þeim var stolið flatskjáum, hljómflutingstækum, áfengi og ýmsu öðru.

Í sumum húsanna hafði verið mikið rótað í skápum og hirslum. Lögreglan hefur engar vísbendingar um hverjir þarna voru að verki.