Innbrot upplýst við almennt umferðareftirlit

Brotist var inn í Kertasmiðjuna í Brautarholti á Skeiðum í nótt og þaðan stolið heilmiklu af tóbaki, gosdrykkjum og fleiru. Þjófarnir fundust við almennt umferðareftirlit í Ölfusinu í morgun.

Lögreglumenn höfðu afskipti af ökumanni á leið um Suðurlandsveg í Ölfusi um níuleytið í morgun. Í bílnum voru tveir karlar og ein kona og var ökumaðurinn undir sýnilegum áhrifum fíkniefna.

Við leit í bifreiðinni fundust fíkniefni, amfetamín og gras. Auk þess var heilmikið af tóbaki, gosdrykkjum og fleiru smálegu. Við nánari skoðun kom í ljós að um var að ræða þýfi úr Kertasmiðjunni.

Fólkið var handtekið og fært í fangageymslu.

Ökumaðurinn hefur viðurkennt innbrotið og er málið upplýst. Til viðbótar þessu var ökumaðurinn sviptur ökurétti.

Fyrri greinKlipptu ökumanninn út úr bílnum
Næsta greinHéldu manni föngnum og stuðuðu hann