Innbrot og lærbrot í dagbókinni

Undanfarið hefur verið brotist í nokkra sumarbústaði í Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppi. Nú síðast var tilkynnt um innbrot í hús í Brekkuskógi.

Í öllum tilvikum var stolið flatskjáum, verkfærum og ýmsum rafmagnstækjum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fundið mikinn hluta þýfisins en þjófarnir eru ófundnir.

Hnefastórum steini var kastað í gegnum öryggisgler í skoðunarstöð Frumherja á Selfossi aðfaranótt síðastliðins þriðjudags. Lögreglan á Selfossi biður þá sem veitt geta upplýsingar að hafa samband í síma 480 1010.

Maður var tekinn tvívegis sama sólarhringinn með kannabisefni í vörslum sínum á Selfossi í vikunni.

Tíu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í vikunni, öll minni háttar. Kona féll í hálku á Selfossi um helgina. Hún var flutt á slysadeild Landspítala en grunur var um að hún hefði lærbrotnað.

Í vikunni voru þrír ökumenn kærðir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir fíkniefnaakstur.