Innbrot og þjófnaðir víða í Árnessýslu

Aðfaranótt laugardags var brotist inn geymsluskúr við veitingastaðinn Hestakrána á Húsatóftum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og þaðan stolið bjórkassa og einhverju meira af áfengi.

Brotist var inn í skúrinn með því að spenna upp hurð. Nokkuð tjón hlaust af því. Sá eða þeir sem voru að verki eru ófundnir.

Brotist var inn í Þjónustumiðstöðina á Þingvöllum á föstudagsmorgun og þaðan stolið skiptimynt. Öryggiskerfi fór af stað kl. 07:25 og þegar öryggisvörður kom á staðinn var búið að brjóta rúðu á vesturhlið Þjónustumiðstöðvarinnar. Þjófnaðurinn er óupplýstur og engar vísbendingar um hver var að verki.

Um helgina var tilkynnt um innbrot í tvo sumarbústaði við Apavatn. Litlu var stolið en tjón hlaust af innbrotunum. Loki af heitum potti við sumarbústað í landi Böðmóðsstaða var stolið.

Á þriðjudag í síðustu viku var tilkynnt um innbrot í kjallara íbúð við Eyrarbraut á Stokkseyri. Innbrotið hefur átt sér stað á tímabilinu frá 16. til 23. febrúar síðastliðinn. Eigandi saknar nokkurra DeWalt verkfæra. Innbrotsþjófurinn var búinn að róta til og kasta hlutum úr hillum og skápum niður á gólf.