Innbrot í Selvogi og á Laugarvatni

Brotist var inn í veiðihús við Hlíðarvatn í síðustu viku og þaðan stolið sófasetti.

Þetta er í þriðja sinn á þremur árum sem brotist er inn í þetta veiðihús og þaðan stolið sófasetti.

Um kl. 1:40 aðfaranótt þriðjudagsins 8. nóvember síðastliðinn sáust bílljós við veiðihúsið. Lögregla fór þegar á vettvang. Lögreglumenn urðu einskis varir á leið sinni en sáu að brotist hafði verið inn húsið.

Ekki sást hvernig bifreið var þarna á ferð við veiðihúsið og biður lögreglan á Selfossi þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 480 1010.

Þá var einnig brotist inn í íþróttamiðstöðina á Laugarvatni þar sem margir geymsluskápar og tveir gosdrykkjaskápar voru sprengdir upp. Þjófarnir hafa brotið sér leið inn á skrifstofu þar sem rótað var í skúffum og skápum. Þeir tóku peninga á skrifstofunni og úr gosdrykkjaskápunum auk þess höfðu þeir á brott með sér skjávarpa.

Þeir sem hafa orðið varir við mannaferðir í og við íþróttahúsið á tímabilinu frá um kl. 23 á fimmtudag til um kl. 8 á föstudag eru beðnir að hafa samband í síma 480 1010.

Fyrri greinFraus í leiðslum hjá kafaranum
Næsta greinAllir hjólbarðarnir eyðilagðir