Innbrot á Nesjum

Lögreglunni á Selfossi barst í gær tilkynning um innbrot í sumarbústað í landi Nesja við Þingvallavatn í Grafningi.

Eigendur bústaðarins höfðu síðast dvalið í bústaðnum þann 11. desember sl. Nágranni hafði veitt því athygli að gluggi á bústaðnum hafði verið spenntur upp og lét eigendur vita um það.

Þegar þau komu á staðinn sáu þau að þjófar hafi verið á ferð og þeir haft á brott JVC hljómflutningstæki, DeWalt rafhlöðuborvél, flíspeysur og vetrarúlpu.

Engar vísbendingar eru um hverjir þarna voru að verki en ef einhver býr yfir upplýsingum um innbrotið er sá beðinn að koma upplýsingum til lögreglu í síma 480 1010.