Ingveldur Anna býður sig fram

Ingveldur Anna Sigurðardóttir.

Ingveldur Anna Sigurðardóttir, meistaranemi í lögfræði frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum, hefur ákveðið að bjóða sig fram í 4.-5. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, fyrir komandi Alþingiskosningar.

Ingveldur greindi frá þessu á Facebooksíðu sinni í dag. Hún er 24 ára og er í meistaranámi í lögfræði við Háskóla Íslands þar sem hún hefur lagt áherslu á mannréttindi og refsirétt. Í haust liggur leiðin til Búdapest í skiptinám þar sem hún mun taka námskeið er tengjast þessum sviðum.

„Samhliða námi hef ég tekið virkan þátt í allskonar félagsstörfum og þar á meðal hagsmunabaráttu stúdenta. Ég sat sem forseti Vöku hagsmunafélags stúdenta innan HÍ og var aðalfulltrúi í Stúdentaráði 2019-2020 ásamt mörgum öðrum störfum innan félagsins. Einnig hef ég tekið þátt í starfi Orators, sem er félag laganema við Háskóla Íslands, með margvíslegum hætti. Ég hef tekið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi og er meðal annars formaður Fjölnis, félag ungra Sjálfstæðismanna í Rangárvallasýslu,“ segir Ingveldur í tilkynningunni.

„Ég legg mikið upp úr því að fylgjast með því sem er að gerast í samfélaginu og tek upplýstar ákvarðanir. Mig langar til þess að gera Suðurlandið að eftirsóttum stað fyrir ungt fólk til þess að búa á. Það liggja gríðarleg tækifæri á Suðurlandi fyrir atvinnulífið, nýsköpun og uppbyggingu. Suðurlandið á að vera fremst í umhverfisvernd og sýna það í verki,“ bætir hún við.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fer fram þann 29. maí næstkomandi og rennur framboðsfrestur út á morgun, fimmtudaginn 8. apríl, kl. 15:30 .

Fyrri grein„Virðist hafa sloppið vel“
Næsta greinNýtt fyrirkomulag Eyrarrósarinnar