Mýrdælingurinn Ingvar Jóhannesson á Víkingnum sigraði í Sindratorfærunni sem fram fór í Tröllkonugili við Hellu í dag að viðstöddum 5.000 þúsund manns.
Keppnin var gríðarlega spennandi og var það Páll Jónsson á Rollunni sem leiddi framan af en eftir að hafa aðeins náð fimmtánda besta tímanum í ánni varð hann að sætta sig við þriðja sætið. Ingvar sýndi hins vegar jafnan og góðan akstur í allan dag og stóð uppi sem sigurvegari eftir frábæra frammistöðu. Hann var í fyrsta sæti áður en mýrin var ekin og þar sigldi hann refsilaust á 350 stigum og tryggði sér 1. sæti örugglega.
Ingvar hlaut 2.020 stig í heildina en Þór Þormar Pálsson varð annar á Thor með 1.958 stig og Páll á Rollunni fékk 1.922 stig.
Gríðarlega jöfn keppni
Þrjátíu keppendur voru skráðir til leiks í dag á 29 ökutækjum, þar af fjöldi Sunnlendinga en þeir áttu margir hverjir erfitt uppdráttar í dag. Tíu efstu sæti gefa stig til Íslandsmeistara og ef Ingvar er frátalinn voru Sunnlendingarnir ekki að raka inn stigum.
Keppnin var hnífjöfn frá 6. sæti niður í það níunda en Mýrdælingurinn Ingi Már Björnsson á Bombunni varð í 6. sæti með 1.762 stig, á eftir honum kom Selfyssingurinn Andri Már Björnsson á Kúrekanum með 1.755 stig, Íslandsmeistarinn Skúli Kristjánsson á Simba leiddi eftir tvær brautir en endaði í 9. sæti með 1.725 stig og heimamaðurinn Þórður Atli Guðnýjarson á Spaðanum varð í tíunda sæti með 1.677 stig.