Ingvar Pétur gefur kost á sér í forystusætið

Ingvar Pétur Guðbjörnsson.

Ingvar Pétur Guðbjörnsson, upplýsingafulltrúi Sjálfstæðisflokksins og blaðamaður á Hellu, hefur ákveðið að gefa kost á sér til forystu á D-listanum í Rangárþingi ytra fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

„Ég hef fundið mikinn meðbyr undanfarin misseri sem ég er afar þakklátur fyrir. Hugurinn er alltaf í heimahögunum og ég hef bæði metnað og áhuga á að nýta þá reynslu sem ég hef aflað mér í þágu sveitarfélagsins okkar,“ segir Ingvar Pétur í tilkynningu sem hann birti á Facebooksíðu sinni í kvöld.

„Staða Rangárþings ytra er sterk. Meirihlutinn hefur staðið vel að rekstrinum á undanförnum árum og það eru mörg spennandi tækifæri framundan í okkar samfélagi. Ég hef alltaf haft sterkar skoðanir og hugsjónir sem ég vil fylgja eftir. Ég settist í sveitarstjórn fyrir 20 árum þegar ég var 23 ára gamall og sinnti þeim störfum í 12 ár. Á þeim tíma aflaði ég mér mikillar reynslu og þekkingar á sveitarstjórnarmálunum og ekki síst á samfélaginu okkar í Rangárþingi ytra. Síðar starfaði ég sem blaðamaður og svo sem aðstoðarmaður ráðherra sem var einstök og dýrmæt reynsla sem ég tel að geti nýst mér vel,“ segir Ingvar Pétur og bætir við að hann fari auðmjúkur og fullur af bjartsýni af stað í þennan leiðangur.

„Ég lít á þetta sem tækifæri til að gefa af mér til samfélagsins míns. Það hefur enn ekki verið tekin ákvörðun um með hvaða hætti verður stillt upp á listann – en ákvörðun mín um að vilja leiða listann liggur fyrir. Ég hlakka til að eiga við ykkur samtal á næstu misserum um samfélagið okkar og þau málefni sem brenna á mér og á ykkur,“ segir Ingvar Pétur ennfremur.

Fyrri greinRafmagnslaust í Þorlákshöfn í nótt
Næsta greinEllý sækist eftir 2. sætinu