Ingunn og Tintron til bjargar á Mosfellsheiði

Björgunarsveitir á leið á vettvang á Mosfellsheiði. Ljósmynd/Landsbjörg

Rétt fyrir klukkan sjö í kvöld voru Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni og Hjálparsveitin Tintron í Grímsnesi kallaðar út ásamt sveitum af höfuðborgarsvæðinu vegna tilkynninga um fjölda bíla sem eru í vandræðum á Mosfellsheiði.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu benda fyrstu upplýsingar til þess að einhverjir tugir bíla séu í vandræðum.

Á leið sinni á vettvang fundu sveitirnar af höfuðborgarsvæðinu einnig nokkra bíla sem reyndust vera fastir á Kjósarskarðsvegi.

Mosfellsheiðin er lokuð, sem og Grafningsvegur efri og Þingvallavegur frá þjóðgarðinum niður að gatnamótunum við Gjábakkaveg.

UPPFÆRT KL. 11:00: Yfir 70 bílar voru losaðir á Mosfellsheiði og Þingvallasvæðinu. Þeim var fylgt yfir heiðina til Þingvalla og safnað saman við Þjónustumiðstöðina en sunnlensku björgunarsveitirnar fylgdu svo bílalest þaðan niður á Suðurlandsveg við Selfoss, en margir hugðust fara Hellisheiði til Reykjavíkur.

Fyrri greinHlaðan stækkar og færir sig um set
Næsta greinÚtilaugin á Selfossi opnuð