Ingólfur seldur á tæpa milljón

Verkið Ingólfur Arnarson, eftir Einar Jónsson myndhöggvara frá Galtafelli í Hrunamannahreppi, seldist á 900 þúsund krónur á listmunauppboði í Gallerí Fold í kvöld.

Rúmlega 100 verk voru boðin upp og seldust sum hver nokkuð yfir matsverði.

Nokkur verkanna í kvöld voru yfir eitt hundrað ára gömul og þeirra á meðal var verk Einars, Ingólfur Arnarson, sem seldist á kr. 900.000,- auk uppboðsgjalda. Verkið er eitt af þremur gifsskúlpturum sem Einar gerði 1909 og var áður í eigu Sveins Björnssonar forseta en Danakonungur fékk eitt eintak á sínum tíma.

Þá seldust tvær fallegar vatnslitamyndir frá Hornafirði eftir Ásgrím Jónsson, önnur á kr. 1.700.000 og hin á kr. 2.500.000 auk uppboðsgjalda.

Næsta listmunauppboð Gallerís Foldar verður í nóvember en auk þess verða uppboð á netinu í millitíðinni.