Ingólfur kveður Skaftfellinga

Árleg guðsþjónusta var í bænhúsinu á Núpsstað í Skaftárhreppi síðastliðinn sunnudag en hefð er fyrir því að hafa guðsþjónustu í bænhúsinu um verslunarmannahelgina.
 
Þetta var kveðjumessa sr. Ingólfs Hartvigssonar en hann hefur sagt stöðu sinni sem sóknarprestur Kirkjubæjarklaustursprestakalls lausri en Ingólfur hefur verið fastráðinn sem sjúkrahúsprestur við Landspítalann.
 
„Ég þakka fyrir öll þau góðu ár sem ég og fjölskylda mín fengum í Skaftárhreppi. Ég vil þakka fyrir vinarhug og góðar stundir. Sérstaklega vil ég þakka öllu því góða fólki sem hefur gefið sér tíma til að starfa fyrir söfnuði sína og kirkju í Kirkjubæjarklaustursprestakalli. Sóknarnefndarfólki, kirkjuvörðum, meðhjálpurum, hringjurum, organistum, tónlistarfólki, söngfólki, kórfólki og fleirum og fleirum. Ég þakka Guði fyrir dvöl mína og þjónustu í Kirkjubæjarklaustursprestakalli,“ segir Ingólfur í kveðju til íbúa prestakallsins.
 
Við kveðjumessuna á Núpsstað lék Zbigniew Zuchowicz á orgelið og félagar úr kirkjukór Prestsbakkakirkju og Ásakórnum leiddu söng. Á eftir messu var boðið upp á kirkjukaffi sem Guðný og Hannes á Hvoli stóðu fyrir en þau hjálpuðu einnig við undirbúning messunnar. Björn Helgi Snorrason var hringjari og Ragnheiður Hlín Símonardóttir var meðhjálpari.
Fyrri grein„Hamingjan við hafið“ hefst í dag
Næsta greinHarður árekstur á Þjórsárdalsvegi