Ingólfur afhjúpaði skilti á Ingólfstorgi

Laugardaginn 6. ágúst var afhjúpað skilti á Ingólfstorgi á Selfossi með nafni torgsins. Það voru þeir Ingólfur Bárðarson frá Selfossi og Kjartan Björnsson, formaður íþrótta- og menningarnefndar sem afhjúpuðu skiltið.

Hringtorgin í Árborg fengu öll nafn árið 2010 að undangenginni nafnasamkeppni. Það var Sigríður Pálsdóttir sem lagði til nafnið Ingólfstorg en torgið er á mótum Suðurlandsvegar og Árbæjarvegar við innkomuna á Selfoss.

Undanfarin ár hafa skilti með nöfnum torganna verið afhjúpuð á Sumar á Selfossi. Enn á eftir að afhjúpa skilti á þremur torgum á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri og verða þau nöfn afhjúpuð í vetur og á næsta ári.

Síðan nafnasamkeppnin var haldin hefur eitt hringtorg bæst við á Selfossi, á mótum Suðurlandsvegar og Gaulverjabæjarvegar, svo það er eina torgið í Árborg sem ekki hefur ennþá hlotið nafn.