Ingólfur Guðnason, garðyrkjufræðingur og fyrrverandi bóndi á Engi í Laugarási, var sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag.
Orðuna hlýtur Ingólfur fyrir frumkvöðlastörf í lífrænni ræktun og kennslu.
Ingólfur og eiginkona hans, Sigrún Elfa Reynisdóttir, stofnuðu Garðyrkjustöðina Engi árið 1985 og ræktuðu fyrst tómata og útimatjurtir. Þau voru brautryðjendur í ræktun ferskra kryddjurta og hófu að stunda lífræna ræktun árið 1990.
Sigrún og Ingólfur seldu Engi í ágúst 2017 og fluttu í Hveragerði en Ingólfur var þá brautarstjóri garðyrkjuframleiðslu hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og er í dag kennari í garðyrkjuframleiðslu hjá Garðyrkjuskólanum – FSu á Reykjum.
Fjórtán Íslendingar voru sæmdir fálkaorðunni í dag en meðal þeirra voru Guðrún Þorgerður Larsen, jarðfræðingur, Rósa Marinósdóttir, fyrrverandi yfirhjúkrunarfræðingur í Borgarnesi, Ásgeir Sigurvinsson, knattspyrnugoðsögn frá Vestmannaeyjum og Sigríður Sigurðardóttir, fyrrverandi safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga.


