Ingigerður orðin 104 ára

Ingigerður Þórðardóttir frá Reykjum á Skeiðum fagnaði 104 ára afmæli sínu í gær. Hún er elsti íbúi Suðurlands og fjórði elsti núlifandi Íslendingurinn.

Ingigerður er fædd á Reykjum á Skeiðum 21. janúar 1912, fjórða í röð 11 systkina. Maki Ingigerðar var Þorsteinn Bjarnason frá Hlemmiskeiði á Skeiðum, en hann lést árið 2002, 92 ára. Þau voru búsett á Selfossi alla tíð, en nú síðustu ár hefur Ingigerður dvalið á Ljósheimum, hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU, færði afmælisbarninu blóm og konfekt í tilefni dagsins. Afmælisbarnið vildi nú lítið gera úr þessu og var hissa á öllu þessu tilstandi og velti fyrir sér hvað væri eiginlega í gangi og komst svo skemmtilega að orði og sagði; „er þetta vegna þess að ég er orðin elsta kerlingin?“

Á vef Langlífis kemur fram að á Suðurlandi í heild (með Austur-Skaftafellssýslu) eru fjórir sem náð hafa hærri aldri, Sólveig Pálsdóttir á Höfn í Hornafirði varð 109 ára, Anna M. Franklínsdóttir á Selfossi 105 ára, Ingilaug Teitsdóttir í Fljótshlíð 104 ára og Guðrún Hallvarðsdóttir í Vestmannaeyjum 104 ára.

Móðir Ingigerðar, Guðrún Jónsdóttir, varð 100 ára og móðursystir hennar 104 ára.

Fyrri greinMargar fjölskyldur njóta góðs af vinningnum
Næsta greinNý verðlaunabók frá Sæmundi